Nú í janúar 2020 er World Carnivore Month eða „kjöt-janúar“ haldinn í þriðja skipti. Hugmyndina á Shawn Baker sem er Bandarískur bæklunarskurðlæknir Sem sjálfur hefur eingöngu borðað kjöt í rúm þrjú ár. Að hans sögn varð janúar fyrir valinu vegna þess að um áramót er fólk almennt móttækilegt fyrir nýjungum og tilbúið að prófa ýmislegt. Baker sjálfur byrjaði á þessu sem tilraun fyrir forvitnis sakir og hélt þessu svo áfram vegna þess mikla ávinnings sem hann hlaut. Fyrir utan betri líðan fór hann að bæta árangur í sinni líkamsrækt. Þar á meðal að slá nokkur heimsmet á Concept2 róðrarvélum.
Kjöt-janúar gengur út á að taka áskorun og borða eingöngu kjöt og/eða aðrar dýraafurðir í a.m.k. 30 daga. Það hefur sýnt sig að slíkt mataræði getur haft frábær áhrif á heilsu fólks til hins betra.
Eitthvað er misjafnt hvernig fólk tæklar þetta mataræði en algengast virðist vera að borða kjöt af ýmsu tagi og eitthvað af eggjum og gjarnan osti. Margir leggja sér einnig til munns mjólkurvörur fisk og annað sjávarfang og innmat ýmiskonar. „Strangasta útgáfan af Carnivore mataræði er sennilega að borða eingöngu rautt kjöt (naut og lamb) vatn og salt.
En hvers vegna bara kjöt? Og er eitthvað vit í þessu?
Kjöt er gríðarlega næringarríkt. Rautt kjöt af grasöldum jórturdýrum fer sennilega fremst í flokki þar. Fólk hefur getað lifað á rauðu kjjöti eingöngu árum og jafnvel áratugum saman. Fæstum dettur í hug að neyta eingöngu kjöts án sérstakrar ástæðu en margir hafa farið á þessa braut vegna veikinda. Oft er fólk að prófa sig áfram með því að útiloka allt annað úr fæðunni tímabundið í þeirri von að finna hvað það er sem veldur óþægindum og jafnvel veikindum. Nánast engar rannsóknir eru til á kjötfæði eingöngu en margar athyglisverðar reynslusögur. Flestum þykir saga Charlene Anderson einna merkilegust en hún hefur borðað eingöngu kjöt í rúm 20 ár.
Ein rannsókn var gerð árið 1928 þar sem tveir menn borðuðu eingöngu kjöt í eitt ár. Annar þessara manna var vestur Íslendingurinn og landkönnuðurinn Vilhjálmur Stefánsson. Þeir voru undir ströngu eftirliti fyrstu vikurnar því óttast var að þeir yrðu fárveikir. Raunin varð þó allt önnur og komu þeir mjög vel út úr þessari tilraun.
Ég hef sjálfur borðað eingöngu kjöt í um tvö og hálft ár. Afleiðingar þess eru fyrst og fremst betri líðan og minni lyfjanotkun. Ég er þarf ekki lengur að taka blóðþrýstingslyf magabólgulyf og blóðþynningarlyf. Og að auki þarf ég nú einungis fjórðung af lyfi við athyglisbresti (ADD) Eitthvað hefur líkamsþyngdin farið niður á við en mér þykir það þó léttvægt miðað við bætta heilsu. Ég byrjaði á þessu sem 90 daga tilraun sem Shawn Baker stóð fyrir og hef ekki séð ástæðu til að breyta aftur. Það hefur þó komið örsjaldan fyrir að ég læt ofan í mig eitthvert meðlæti t.d. þegar ég fer í mat til mömmu eða er gestur annarsstaðar. Þetta mataræði er ekki nein trúarbrögð og ég vil alls ekki að vinir og ættingjar sem bjóða mér heim þurfi að hafa einhverjar áhyggjur vegna míns mataræðis. Ég get svosem borðað hvað sem er þótt ég kjósi að borða eingöngu kjöt eða dýraafurðir meira en 360 daga á ári.
Ég hef nú í rúm tvö ár haldið úti facebook hópnum „Iceland Carnivore Tribe“ þar sem er að finna mikið magn upplýsinga og fræðslu um mataræði sem byggir á kjötneyslu. Þar má líka finna sögur fjölda fólks sem hlotið hefur ávinning af því að auka kjötneyslu.
Er kjöt slæmt?
Kjötneysla hefur verið töluvert í umræðunni undanfarið m.a. vegna meintra neikvæðra áhrifa á umhverfið. Einnig hefur því verið haldið fram í a.m.k. 50 ár að kjötneysla sé undirrót flestra alvarlegra sjúkdóma. Þessar kenningar hefur þó ekki verið hægt að sanna með áreiðanlegum rannsóknum þrátt fyrir góða viðleytni og margar tilraunir. Rannsóknir sem stuðst er við til að reyna að varpa skugga á hollustu kjötneyslu hafa í gegn um tíðina verið svokallaðar faraldsfræðilegar rannsóknir. Þær eru þannig gerðar að fólk skilar inn spurningalistum eftir minni um hvað það borðar t.d. á tveggja ára fresti í langan tíma, jafnvel áratugi. Fylgst er með hvort fólk veikist og þá hverju það veikist af og reynt að finna tengingar fæðis og sjúkdóma. Oft eru aðrir lífstílsþættir eins og reykingar drykkja og hreyfing ekki tekin með í reikninginn. Þessar rannsóknir virðast vera þess eðlis að hægt er að finna nánast allt sem leitað er að og einnig að finna ekki það sem ekki er æskilegt að finna. Nina Teicholz höfundur bókarinnar „The big fat surprise“ hefur rannsakað vísindin á bak við ráðleggingar um mataræði í Bandaríkjunum og hún komst að þeirri niðurstöðu að ráðleggingarnar eru ekki byggðar á bestu mögulegum vísindum. Hún reyndar dregur í efa að ráðleggingarnar séu raunverulega byggðar á vísindalegum grunni og fékk grein þess efnis birta í British Medical Journal árið 2015.
Ef vel er að gáð sést að þessar (ómarktæku?) rannsóknir sem mæla gegn kjötneyslu eru þær sömu og mæla með aukinni neyslu korns og grænmetis.
Þegar kemur að umhverfisáhrifum er ljóst að víða má gera betur. Verksmiðjubúskapur af ýmsu tagi er án nokkurs vafa slæmur fyrir umhverfið. Til hans hefur þó líklega verið stofnað í upphafi til að nýta betur landrými og fóður en þegar upp er staðið er niðurstaðan þó önnur. Hefðbundinn búskarpur þar sem dýr eru haldin í góðu umhverfi og fóðruð á þeirra „náttúrulega“ fæði eins og t.d. grasbeit fyrir jórturdýr er þó allt annað mál. Nú fyrir jólin kom t.d. út rannsókn í Bandaríkjunum, gerð á White Oak Pastures býlinu sem sýnir svart á hvítu að ræktun nautakjöts með stýrðri beit bindur meira kolefni en hún losar. Nánar tiltekið bindast 3.5 kg af kolefni fyrir hvert 1 kg kjöts sem er framleitt Býlið notar engan tilbúinn áburð og hefur ekki gert í um tvo áratugi heldur beitir skepnunum á þann hátt að þær bera í raun sjálfar á túnin. Þessi aðferð virðist einnig auka nyt landsvæðisins og getur því borið‘ meiri kjötframleiðslu en landsvæði af sömu stærð í svokölluðum „feedlot“ framleiðsluferli. Á þessu má sjá að möguleikinn og aðferðirnar til að framleiða á endurnýjanlegan (regenerative) hátt eru til staðar. Það ætti því að vera kappsmál okkkar neytenda að velja „rétt“ kjöt.
Ég skora á alla að kynna sér mataræði byggt á kjöti og öðrum dýraafurðum, kosti þess og galla.
Gleðilegt kjöt-ár
Ævar Austfjörð
Kjötiðnaðarmaður, matartæknir, næringarnörd.