Borðaðu nú grænmetið þitt Ævar minn svo þú verðir stór og sterkur! Þessi orð úr æsku. Sögð af fullkominni ást og umhyggju. Af fólkinu sem elskar mig mest. Mömmu og pabba, ömmu og afa. Reyndar…þegar ég hugsa þetta betur þá hafa amma og afi sennilega ekki sagt þetta. Enda man ég svosem varla eftir því að það væri mikið grænmeti á borðum hjá þeim. Ég er jafnvel ekki frá því að afi hafi kallað grænmeti „skepnufóður“ En það er nú þannig að við mannfólkið erum alltaf að læra eitthvað nýtt. Og oft lærum við eitthvað rangt. Og ég erfi þetta ekki við neinn.
Sennilega hafa einhverjir búist við að ég myndi vilja skrifa lofgrein um það hvað það gerir manni gott að borða bara kjöt. Það gerir manni vissulega gott eins og hugsanlega einhverjir hafa tekið eftir á þeim breytingum sem orðið hafa á mér. Einnig eru einhverjir tugir ef ekki hundruðir Íslendinga að reyna þetta fæði á sjálfum sér og langflestir með góðum árangri. Flestir hafa sömu eða svipaða sögu, sem er á þann veg að svefn batnar skap batnar líkams og liðverkir hverfa hugsun verður skýrari meltingarvandamál minnka og hverfa blóðþrýstingur lækkar svo ekki sé minnst á að mjög margir léttast verulega. Nokkur dæmi eru einnig um að liðagigt lagist að mestu. Best þykir flestum að geta alltaf borðað eins mikið og þeim þykir þurfa og það á svo sannarlega við um mig. Ég borða mikið og alltaf eitthvað gott og ég verð bókstaflega aldrei verulega svangur. Margir lenda í einhverskonar vanda með umskiptin yfir í þetta mataræði eins og t.d. tímabundið slen eða orkuleysi og verða hissa þegar þeim er tjáð að besta ráðið sé sennilega að borða meira. Annars hef ég mikla orku og mun betri einbeitingu en ég á að venjast.
Í þessari grein ætla ég hinsvegar að útskýra í eins stuttu máli og mér er mögulegt, hvers vegna dýr eru matur en plöntur eitthvað sem er borðað þegar ekki er til matur. Ég verð ekki með neinar tilvísanir í vísindagreinar eða rannsóknir en áhugasamir mega þó hafa samband ef þá vantar fróðlegt lesefni.
Maðurinn er talinn hafa þróast í 2-2.5 milljónir ára. Hann er talinn hafa borðað kjöt að hluta eða jafnvel mestu leiti allan þennan tíma og einnig er talið að sameiginlegur forfaðir mannsins og sjimpansa hafi borðað kjöt fyrir um 6 milljónum ára. Sjimpansar borða reyndar kjöt en um 3-5% af mat þeirra er kjöt.
Nokkrar ástæður þykja gefa nokkuð öruggar sannanir fyrir kjötáti mannsins og þeirri staðreynd að við veiddum okkur til matar. Maðurinn hefur t.d. styttri ristil en stórir apar sem lifa að mestu á grænmeti. Aparnir hafa gerlaflóru í meltingarveginum sem gerir þeim kleift að gerja plönturnar og vinna úr þeim alla þá næringu sem þeir þurfa. Maðurinn getur ekki melt plöntur eins vel og þess vegna fer mikill hluti grænmetis í gegn um meltingarveginn án þess að næringin náist úr. Maðurinn hefur eiginleika til að búa til verkfæri og vopn til að veiða önnur dýr. Hann hefur þróað með sér hæfileika til að kasta fast en t.d. sjimpansar geta ekki kastað af nema 20-30% afli miðað við manninn. Það er nokkuð ljóst að við þróuðum ekki þennan kast hæfileika til að kasta steinum í ávexti sem hanga í trjám því þeir falla til jarðar þegar þeir eru tilbúnir. Heilinn er okkar besta vopn en hann er það tæki sem við höfum notað til að veiða nánast öll önnur dýr jarðarinnar okkur til matar. Maðurinn er eina tegundin sem eldar mat. Talið er að við höfum eldað mat í 300-500 þúsund ár og jafnvel eru kenningar um að kjöt hafi verið étið eldað í allt að 2 milljónir ára.
Það er eldun á mat sem gerði þróun mannsin mikið hraðari en annara tegunda því með eldun á mat var okkur kleift að fá mun meira magn af hitaeiningum úr matnum og þar með vaxa og þróast hraðar.
Það er eldamennskan og smíði áhalda og vopna sem gerir okkur mennsk.
Mestan tíma þessara tveggja milljóna ára höfum við því líklega borðað kjöt og hugsanlega fisk um 80% af árinu. Ekki er ólíklegt að egg hafi verið borðuð á vorin og ávextir og ber á haustin. Það má heldur ekki gleyma því að á þessum milljónum ára í þróunarsögu mannsins hefur hitastig á jörðinni verið breytilegt. Þar vekur sérstaklega mína athygli að á langtímum saman hafa verið tímabil sem kallast ísaldir. Þær hafa staðið í þúsundir ára og þá hafa heitustu staðir jarðar verið svipað og Ísland er á okkar dögum. Við vitum vel að á Íslandi er nánast ekki hægt að rækta neitt með góðu móti nema gras. Og ekki getum við mennirnir lifað á grasi svo á þeim tímum er ljóst að við höfum að mestu borðað grasbíta.
Grænmeti og plöntur yfirleitt eru í sjálfu sér ágætar fyrir þá sem þær vilja. Þær eru reyndar oftast frekar vondar á bragðið.Prófið bara að gefa smábarni-óvita grænmeti að borða. Hann vill það ekki. Og það er bara eðli barnsins. Enda vilja flestar plöntur ekki láta borða sig. Þær standa bara þarna með rætur í moldinni og eina vörn þeirra til að vera ekki étin er að framleiða efni sem hefur þau áhrif á þann sem er að borða það að viðkomandi verði illt t.d. í maganum eða hálsinum. Oft valda þessi efni sem kallast „phytochemicals“ eða „antinutrients“ ertingu og jafnvel uppköstum. Og alls konar vanlíðan. Maðurinn hefur þó á löngum tíma náð að rækta þetta óbragð úr eihverjum plöntum þannig að það megi koma þeim niður með góðu móti. Gott ráð til að gera plöntu betri á bragðið er t.d. að steikja hana upp úr dýrafitu eins og smjöri. Ferskt salat fer jafnvel nærri því að bragðast sæmilega ef t.d. notaður er mikill ostur.
Plöntur sem vilja láta borða sig eða allavega hluta af sér eru ávaxtaplöntur. Ávextirnir eru fallegir á litinn og sætir á bragðið. Ávaxtaplantan vill láta borða sig því þannig fjölgar hún sér og viðheldur því sá sem borðar ávöxtinn þarf að skila af sér úrgangi sem ekki meltist eins og trefjum og svo að sjálfsögðu útsæði plöntunnar sem í flestum tilvikum eru kallaðir steinar.
Plöntur sem ekki bera ávexti hafa falleg blóm sem hafa góða lykt og lokka til sín skordýr eins og býflugur sem sjá um að hjálpa þeim að viðhalda sér og fjölga og svo eru það kornplöntur sem treysta oftast á að vindurinn dreifi útsæðinu og hjálpi þannig að viðhalda tegundinni.
Flestar ætisplöntur nútímans eru ekki til í náttúrunni í sömu mynd og hafa nánast verið búnar til af manninum.
Dýrin hafa aðra vörn til að vera ekki borðuð. Þau geta hlaupið í burtu eða reynt að verja sig með öðrum hætti eins og að beita afli. Þess vegna eru engin eiturefni í kjöti og fiski því dýrið getur komið sér í burtu. Sú fullyrðing að kjöt sé krabbameinsvaldandi er studd með veikum faraldsfræðilegum rannsóknum sem eru í raun þess eðlis að þær geta ekki fundið beina orsök og afleiðingu heldur aðeins veikar tengingar.
Ef við förum svo aðeins nær okkur í tíma þá er talið að maðurinn hafi ræktað dýr til matar í um 10 þúsund ár og einnig plöntur. Reyndar eru til kenningar þess efnis að maðurinn hafi upphaflega byrjað að rækta plöntur til að lokka dýrin til sín og veiða þau þannig.
Frá því að Ísland byggðist var fæðu úrval lítið. Það er ljóst að hér á landi hefur fólk borðað lambakjöt og fisk mest allt árið. Egg hafa verið tekin á vorin og fugl veiddur upp úr miðju sumri og svo hafa verið borðuð ber og fjallagrös. . Eitthvað hefur verið borðað af kartöflum og innfluttu korni síðustu 250-300 ár. Lítil sem engin grænmetisrækt var hér fyrr en um 1750. Fram að þeim tíma lifðu forfeður okkar á kjöti og fiski.
Það er því alveg morgunljóst þegar sagan er skoðuð að við erum við það sem kallað er omnivores eða dýr sem borðar bæði plöntur og dýr en dýr hafa þó augljóslega verið okkar aðal fæða.
Eftir að landyrkja hófst og við fórum að nýta fleiri plöntur til matar fyrir 10 þúsund árum þá hefur maðurinn minnkað hann er vöðvaminni beinin eru þynnri og viðkvæmari og heilinn hefur minnkað. Og því enda ég þetta með vísan í upphafsorð þessarar greinar, að þá ætti að vera ljóst að varla nokkur maður hefur orðið stór og sterkur af því að borða grænmetið sitt. Ó nei! Það skrifast á kjötið 😉
Þess vegna kjöt!
Lifið heil
Ævar Austfjörð
#meatheals